Stolt og lánsöm að ná þessu afreki

Ellen White bregður á leik eftir að hafa skorað eitt …
Ellen White bregður á leik eftir að hafa skorað eitt af 48 mörkum sínum fyrir England. AFP

Ellen White skráði sig í sögu­bæk­urn­ar í gærkvöldi þegar hún skoraði þrennu í 20:0 sigri Englands gegn Lettlandi í undankeppni HM 2023. Hún er nú marka­hæsti leikmaður enska landsliðsins frá upp­hafi með 48 mörk og kveðst afar stolt af afrekinu.

„Þetta var mjög tilfinningaþrungin stund á vellinum. Ég er mjög stolt af því að spila fyrir landið mitt. Við erum með nokkra stórkostlega leikmenn sem eru að koma upp og ég tel mig lánsama að vera umkringda þeim.

Ég er mjög stolt. Liðsfélagar mínir vita hversu mikla þýðingu þetta hefur fyrir mig, þeir vita hversu mjög ég elska að spila fyrir England,“ sagði White í samtali við BBC Sport.

Hún fór í gærkvöldi fram úr Kelly Smith sem skoraði 46 mörk í 117 leikjum á ár­un­um 1995 til 2015.

Mörkin 48 hjá White, sem er 32 ára, hafa hins vegar komið í 101 landsleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert