Ekki meira með á tímabilinu?

Simon Kjær liggur á vellinum í Genoa eftir að hann …
Simon Kjær liggur á vellinum í Genoa eftir að hann varð fyrir meiðslunum í gærkvöld. AFP

Simon Kjær, fyrirliði danska landsliðsins í knattspyrnu og miðvörður AC Milan á Ítalíui, gæti verði frá keppni út þetta tímabil vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leik AC Milan gegn Genoa í gærkvöld.

Kjær var þá borinn af velli eftir aðeins fjögurra mínútna leik og AC Milan staðfesti í dag að hann þyrfti að fara í uppskurð á hné þar sem liðbönd hefðu skaddast. Ekki er sagt hversu lengi hann verði frá keppni en íþróttadagblaðið Gazzetta dello Sport segir í dag að rætt sé um sex mánaða fjarveru. Kjær myndi þá ekki spila meira á tímabilinu.

Calciomercato segir að AC Milan ætli að bregðast við þessu með því að fá nýjan miðvörð í hópinn og þar eru nefndir til sögunnar Brasilíumaðurinn Gleison Bremer hjá Torino og Mattia Caldara sem gæti verið kallaður heim úr láni hjá Venezia.

mbl.is