Velkomin Sveindís Jane

Sveindís Jane Jónsdóttir er klár í átökin í Þýskalandi.
Sveindís Jane Jónsdóttir er klár í átökin í Þýskalandi. mbl.is/Unnur Karen

Þýska knattspyrnufélagið Wolfsburg bauð Sveindísi Jane Jónsdóttur velkomna til félagsins á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Sveindís, sem er einungis tvítug, skrifaði undir fjögurra ára samning við þýska stórliðið í desember á síðasta ári en hún eyddi síðasta tímabili á láni hjá Kristianstad í Svíþjóð.

Sóknarmaðurinn spilaði mjög vel í Svíþjóð á nýliðinu tímabili og hjálpaði Kristianstad að tryggja sér Meistaradeildarsæti en Sveindís skoraði sex mörk og lagði upp önnur tvö í 19 leikjum með Kristianstad á tímabilinu.

Hún er nú mætt til Þýskalands þar sem hún mun taka slaginn með Wolfsburg í þýsku 1. deildinni en liðið er með 22 stig í efsta sæti deildarinnar eftir fyrstu níu umferðirnar, stigi meira en Þýskalandsmeistarar Bayern München.

mbl.is