FIFA vísar kvörtunum Suður-Afríku og Benín frá

Stuðningsmenn Suður-Afríku á góðri stundu.
Stuðningsmenn Suður-Afríku á góðri stundu. AFP

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur vísað kvörtunum knattspyrnusambanda Suður-Afríku og Benín frá eftir að bæði sambönd kvörtuðu undan framkvæmd leikja í undankeppni HM 2022, leikjum sem þýða að óbreyttu að báðar þjóðir missa af sæti á mótinu.

Suður-afríska sambandið hafði kvartað yfir dómgæslunni í 0:1-tapi fyrir Gana, þar sem sigurmarkið kom úr vítaspyrnu sem var dæmd fyrir litlar sem engar sakir.

Fyrir utan vítaspyrnudóminn þótti sambandinu sem dómgæslan hafi hallað verulega á Suður-Afríku yfir höfuð í leiknum. Með sigrinum tryggði Gana sér sæti í umspili um sæti á HM á kostnað Suður-Afríku.

Knattspyrnusamband Benín lagði þá fram kvörtun vegna framkvæmdar leiks liðsins gegn Alþýðulýðveldinu Kongó.

Kongó gerði fimm skiptingar í leiknum á fjórum mismunandi tímapunktum en aðeins má gera skiptingarnar fimm í þremur skiptingagluggum samkvæmt reglum FIFA.

Kongó vann leikinn 2:0 og tryggði sér þannig sæti í umspili um sæti á HM á kostnað Benín.

Sem áður segir vísaði FIFA báðum kvörtunum frá án þess þó að færa nánari rök fyrir úrskurðum sínum.

Knattspyrnusambönd Suður-Afríku og Benín eiga þess kost á að áfrýja þessum úrskurðum FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert