Gat ekki gripið bolta þegar hann byrjaði

Adam Ingi Benediktsson.
Adam Ingi Benediktsson. Ljósmynd/Fredrik Aremyr

Hlutirnir hafa gerst ansi hratt hjá knattspyrnumarkverðinum unga Adam Inga Benediktssyni en hann lék sinn fyrsta leik fyrir Gautaborg um síðustu helgi þegar liðið vann öruggan 4:0-sigur gegn Östersund í sænsku úrvalsdeildinni á Ullevi-vellinum í Gautaborg.

Adam Ingi, sem er einungis 19 ára gamall, gekk til liðs við U19-ára lið Gautaborgar frá HK sumarið 2019 en lék með FH í yngri flokkunum áður en hann gekk til liðs við Kópavogsliðið árið 2017.

„Tilfinningin í þessum fyrsta leik var ótrúleg satt best að segja,“ sagði Adam Ingi í samtali við Morgunblaðið.

„Ég var búinn að sjá þetta augnablik fyrir mér í hausnum á mér en svo þegar maður fær loksins að upplifa það þá var þetta í raun ólýsanlegt. Það var líka skemmtilegur bónus að halda markinu hreinu og ég get þakkað varnarmönnum Gautaborgar fyrir það enda spiluðu þeir eins og um stórleik í Meistaradeildinni væri að ræða.

Ég fékk að vita það daginn fyrir leik að ég myndi spila gegn Östersund og ég var nokkuð rólegur í tíðinni fyrst eftir fréttirnar. Ég sá bara fyrir mér að ég væri að fara spila venjulegan fótboltaleik með 22 leikmönnum og einum bolta. Um leið og ég steig inn á völlinn þá breyttist það hins vegar hratt og ég var mjög stressaður fyrstu tíu mínútur leiksins.

Ég fann það samt mjög fljótlega að stuðningsmenn liðsins stóðu mjög þétt við bakið á mér og þá einhvern veginn minnkaði allt stress. Þegar allt kemur til alls þá er þetta bara fótbolti þegar dómarinn flautar til leiks og ég komst vel frá mínu. Vonandi fæ ég fleiri tækifæri áður en tímabilinu lýkur og ég á nú von á því að stressið verði talsvert minna í næsta leik,“ sagði Adam Ingi eftir fraumraunina.

Viðtalið í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert