„Stjórinn og læknirinn björguðu lífi mínu“

Charlie Wyke, framherji enska C-deildarliðsins Wigan Athletic, segist eiga líf sitt knattspyrnustjóra sínum og lækni félagsins að launa eftir að hann fékk hjartaáfall á æfingu síðastliðinn mánudag.

„Mér finnst mikilvægt að stuðningsmenn og almenningur fái að heyra sögu mína því stjórinn [Leam Richardson] og læknir félagsins, Jonathan Tobin, björguðu lífi mínu, og saga mín gæti vel bjargað lífi einhvers.

Eins og ykkur er kunnugt um hneig ég niður á æfingu á mánudag. Ég fékk hjartaáfall og þurfti á endurlífgun að halda, og mér hefur verið tjáð að það hversu fljótur stjórinn var að hefja endurlífgunina og hvernig læknirinn hélt henni áfram hafi bjargað lífi mínu,“ skrifaði Wyke í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Wigan.

Hann hafði beðið félagið um að greina frá því að ekki væri búið að bólusetja hann fyrir kórónuveirunni og því megi ekki rekja hjartaáfallið til þess.

Í yfirlýsingunni kvaðst Wyke sérlega þakklátur fyrir að starfslið Wigan hafi fengið þjálfun í endurlífgun fyrir aðeins nokkrum vikum enda hafi það haft sitt að segja að stjórinn Richardson hafi verið jafn fljótur að bregðast við og raunin varð.

„Ég mun að eilífu vera þakklátur fyrir það að vegna gjörða þeirra, og liðsfélaga minna og annars starfsfólks, sé ég hér enn til þess að tala um þessa lífsreynslu,“ skrifaði Wyke einnig.

mbl.is