Bayern vann Dortmund í fimm marka leik

Robert Lewandowski skorar sigurmarkið.
Robert Lewandowski skorar sigurmarkið. AFP

Bayern München er komið með fjögurra stiga forskot á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta eftir 3:2-útisigur á Dortmund í toppslag í kvöld.

Julian Brandt kom Dortmund yfir strax á 5. mínútu en aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Robert Lewandowski. Kingsley Koman sá svo til þess að Bayern væri með 2:1-forskot í hálfleik er hann skoraði á 44. mínútu.

Norski markahrókurinn Erling Braut Haaland jafnaði á 48. mínútu en Lewandowski hafði ekki sungið sitt síðasta því hann skoraði sigurmarkið úr víti á 77. mínútu.

Bayern er nú með 34 stig í toppsætinu en Dortmund er í öðru sæti með 30 stig. Bayer Leverkusen kemur þar á eftir með 27 stig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert