Á flótta undan réttvísinni eftir ásakanir um nauðgun

Babacar Sarr (t.v.) í leik með Selfossi árið 2012.
Babacar Sarr (t.v.) í leik með Selfossi árið 2012. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Alþjóðalögreglan, Interpol, lýsir eftir senegalska knattspyrnumanninum Babacar Sarr vegna fjölda ásakana um nauðganir í Noregi.

Sarr hóf feril sinn á Selfossi þar sem lék með meistaraflokki karla í næstefstu deild árið 2011 og í úrvalsdeild árið 2012.

Eftir það færði hann sig yfir til Noregs þar sem hann lék fyrst með Start, þá Sogndal og svo Molde frá 2016 til 2019.

Þegar Sarr var leikmaður Molde hrönnuðust upp ásakanir nokkurra kvenna í hans garð um nauðganir og var hann sýknaður af ákæru um eitt tilvik nauðgunar í ágúst árið 2018.

Samningi Sarr við Molde var rift í janúar árið 2019 og samdi hann þá við hvít-rússneska liðið Yenisey mánuði síðar.

Eftir að ofangreindu máli var áfrýjað og norska lögreglan lýsti því yfir að Sarr væri alþjóðlega eftirlýstur samdi hann við sádi-arabíska liðið Damac í júní sama ár.

Hann var svo leystur undan samningi þar í febrúar árið 2020. Síðan þá hefur ekkert spurst til Sarr og er talið að hann sé í felum.

Interpol, sem inniheldur 195 lönd sem meðlimi, biðlar til lögregluyfirvalda í öllum þessum löndum að hafa augun opin og handtaka Sarr ef hann sést í einhverju þeirra og framselja hann svo til Noregs þar sem hann yrði sóttur til saka.

Þess má geta að Hvíta-Rússland, Sádi-Arabía og Senegal eru öll hluti af Interpol og talið er líklegast að hann sé í felum í annað hvort Sádi-Arabíu eða heimalandi sínu Senegal.

Dagbladet í Noregi fjallar ítarlega um mál Sarr í dag og má lesa greinina í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert