Kolbeinn yfirgefur Gautaborg

Kolbeinn Sigþórsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Gautaborg.
Kolbeinn Sigþórsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Gautaborg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Kolbeinn Sigþórsson mun yfirgefa Gautaborg þegar samningur hans við sænska úrvalsdeildarfélagið rennur út um áramótin. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag.

Kolbeinn, sem er 31 árs gamall, gekk til liðs við félagið í janúar á þessu ári og skrifaði hann undir eins árs samning við Gautaborg.

Framherjinn skoraði fimm mörk í 21 leik með liðinu á tíma sínum í Gautaborg, þar af lék fyrstu 17 leikina í úrvalsdeildinni á tímabilinu 2021, en hann hefur ekkert leikið með liðinu síðan í lok ágúst.

Hann hefur bæði verið að glíma við meiðsli og þá var hann settur í ótímabundið leyfi hjá félaginu eftir að fréttir bárust af því að hann hefði greitt tveimur konum miskabætur fyrir meint ofbeldisbrot á skemmtistað í Reykjavík árið 2017.

mbl.is