Milos í viðræðum í Noregi

Milos Milojevic gæti tekið við Rosenborg á næstu dögum.
Milos Milojevic gæti tekið við Rosenborg á næstu dögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðræður milli knattspyrnuþjálfarans Milos Milojevic og norska úrvalsdeildarfélagsins Rosenborg eru langt á veg komnar samkvæmt heimildum mbl.is.

Viðræðurnar hafa gengið vel en þjálfarinn er sagður spenntur fyrir því að reyna fyrir sér í Noregi hjá sigursælasta liði landsins.

Í gær bárust á ný fréttir af því að Rosenborg vildi ráða Serbann, sem hefur þjálfað bæði Víking úr Reykjavík og Breiðablik hér á landi, en hann er í dag knattspyrnustjóri Hammarby í Svíþjóð. Fjallað var um þetta í norskum og sænskum fjölmiðlum fyrir mánuði en þá vildi hvorugt félagið staðfesta að fótur væri fyrir fréttinni.

Milos lenti í Noregi í gærkvöldi en Rosenborg og Hammarby eiga enn þá eftir að ná samkomulagi um vistaskipti þjálfarans.

Samkvæmt heimildum mbl.is ríkir bjartsýni hjá báðum félögum um að samkomulag muni nást og Milos taki við Rosenborg á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert