Skiptir um félag í Svíþjóð

Hallbera Guðný Gísladóttir leikur ekki með AIK á komandi keppnistímabili.
Hallbera Guðný Gísladóttir leikur ekki með AIK á komandi keppnistímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hallbera Guðný Gísladóttir verður ekki áfram í herbúðum sænska knattspyrnufélagsins AIK á næstu leiktíð. Þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is í dag.

Hallbera, sem er 35 ára gömul, gekk til liðs við AIK fyrir síðasta tímabil en félagið var nýliði í sænsku úrvalsdeildinni á nýliðinni leiktíð.

Vinstri bakvörðurinn var fyrirliði liðsins stærstan hluta tímabilsins en hún hjálpaði liðinu að halda sæti sinu í úrvalsdeildinni.

Þrátt fyrir það verður hún ekki í herbúðum sænska liðsins á komandi tímabili en hún spilar að öllum líkindum áfram í Svíþjóð á næstu leiktíð. 

„Ég er bara að skoða mín mál og ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það með hvaða liði ég spila á næstu leiktíð,“ sagði Hallbera í samtali við mbl.is.

„Ég er í langþráðu fríi núna og ég mun skoða mín mál betur eftir það,“ bætti Hallbera við í samtali við mbl.is.

mbl.is