Rennes samþykkir ekki einhliða frestun Tottenham

Leikmenn Rennes eru komnir til London og eru ósáttir við …
Leikmenn Rennes eru komnir til London og eru ósáttir við framgöngu Tottenhammanna. AFP

Forráðamenn franska knattspyrnufélagsins Rennes eru afar ósáttir við þá ákvörðun Tottenham að leikur liðanna í Sambandsdeild Evrópu fari ekki fram í London annað kvöld vegna kórónuveirusmita í röðum enska liðsins.

Tottenham sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld um að leikurinn færi ekki fram og viðræður væru í gangi við UEFA um hvernig staðið yrði að frestun hans.

Þetta fór ekki vel í Frakkana sem hafa einnig sent frá sér yfirlýsingu og sagt að tilkynning Tottenham sé einhliða og hafi ekki verið staðfest af UEFA.

„Þar sem UEFA hefur ekki formlega frestað leiknum stendur Rennes við þá ákvörðun sína að spila leikinn," sagði m.a. í yfirlýsingu franska félagsins.

Lið Rennes kom til London síðdegis í dag og kvörtuðu Frakkarnir yfir því að Tottenham hefði ekki komið heiðarlega fram með því að láta ekki vita af fyrirhugaðri frestun fyrr en eftir að flugvél þeirra hefði verið lent í ensku höfuðborginni. Nokkrum tímum áður höfðu bæði Tottenham og UEFA staðfest að leikurinn myndi fara fram.

mbl.is