Fótbrotnaði og smitaðist svo af veirunni

Mikael Egill Ellertsson í leik með íslenska A-landsliðinu.
Mikael Egill Ellertsson í leik með íslenska A-landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óheppnin elti íslenska landsliðsmanninn Mikael Egil Ellertsson á röndum um jólin þegar hann varð fyrir því óláni að fótbrotna í leik með SPAL í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu og smitast svo skömmu síðar af kórónuveirunni.

Mikael byrjaði sinn fyrsta leik á ferlinum fyrir SPAL í síðasta leik liðsins fyrir jól, sem var 0:4 tapleikur gegn Frosinone þann 18. desember. Leikur hann á láni frá A-deildarliðinu Spezia á þessu tímabili.

Mikael meiddist snemma í leiknum, kláraði samt sem áður fyrri hálfleikinn en var svo tekinn af velli í hálfleik.

„Ég þurfti ekki að fara í aðgerð þannig að þeir sögðu að þetta væru tveir til þrír mánuðir frá. Þetta gerðist í leiknum gegn Frosinone þar sem ég byrjaði og þetta gerist víst á 3. mínútu þannig að ég spilaði allan fyrri hálfleikinn fótbrotinn,“ sagði Mikael í samtali við Fótbolta.net.

Þar greindi hann einnig frá því að hann hefði skömmu eftir fótbrotið greinst smitaður af veirunni. Því var hann í einangrun alla jólahátíðina en fjölskylda Mikaels var á Ítalíu um jólin og honum því innan handar.
„Þetta var ekkert spes. Ég fór beint í einangrun eftir leik og gat ekkert tékkað á löppinni og svo var ég með kórónuveiruna. Það var erfitt að redda röntgenmyndatöku en það gekk upp og ég var sóttur heim til mín á sjúkrabíl og farið beint á sjúkrahúsið,“ útskýrði hann.

Í samtali sínu við Fótbolta.net kveðst Mikael ætla að sinna endurhæfingu vel næstu mánuði og markmiðið sé að koma enn sterkari til baka.

mbl.is