„Sjáið hana! Mamma er mætt á svæðið“

Sara Björk Gunnarsdóttir í úrslitaleik Lyon og Wolfsburg í Meistaradeild …
Sara Björk Gunnarsdóttir í úrslitaleik Lyon og Wolfsburg í Meistaradeild Evrópu árið 2020. AFP

Ada Hegerberg, ein besta knattspyrnukona heims og liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttur landsliðsfyrirliða hjá franska stórliðinu Lyon, birti í gær mynd af Söru Björk og ungum syni hennar þegar hún mætti á æfingasvæði félagsins eftir langa fjarveru.

Hegerberg, sem vann fyrsta Gullknött kvenna árið 2018, er sjálf nýsnúin aftur á völlinn eftir löng og erfið meiðsli sem héldu henni frá keppni í að verða tvö ár, 21 mánuð.

Hún skrifaði á twitteraðgangi sínum: „Sjáið hana! Mamma er mætt á svæðið. Velkomin aftur Sara.“

Ungi maðurinn á myndinni í fangi móður sinnar er Ragnar Frank Árnason, en hann fæddist í nóvember síðastliðnum. Faðir hans er Árni Vilhjálmsson knattspyrnumaður, sem nú leitar sér að nýju félagi sem næst Lyon, þar sem fjölskyldan er búsett.

Sara Björk hefur sagst áfjáð í að láta barnsburð ekki koma í veg fyrir að hún geti áfram átt góðan feril á hæsta stigi knattspyrnunnar og stefnir að því að leiða íslenska landsliðið á EM á Englandi í sumar.

mbl.is