Bjargaði lífi mótherjans

James Rodriguez í landsleik með Kólumbíu í vetur.
James Rodriguez í landsleik með Kólumbíu í vetur. AFP

Kólumbíski knattspyrnumaðurinn James Rodriguez bjargaði líklega lífi mótherja síns, Ousmane Coulibaly frá Malí, þegar Al Rayyan og Al Wakrah mættust í úrvalsdeildinni í Katar um síðustu helgi.

Coulibaly hneig þá niður og fór í hjartastopp. Rodriguez var eldsnöggur til að veitt honum fyrstu hjálp áður en læknateymi liðanna komu á vettvang.

Leiknum var hætt í stöðunni 1:0 fyrir Al Rayyan en var síðan leikinn til enda á mánudag og þá skoraði Rodriguez tvisvar og lokatölur urðu 3:0. Rodriguez kom til Al Rayyan frá Everton í sumar.

Coulibaly er 32 ára og lék í Frakklandi og Grikklandi þar til hann kom til Al Wakrah fyrir þremur árum. Hann er sagður vera í stöðugu ástandi á sjúkrahúsi í Katar. Eiginkona hans skrifaði á Instagram að hann væri að jafna sig smám saman og þakkaði fyrir allan stuðninginn sem hann hefði fengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert