Magni útnefndur stjórnandi ársins í Svíþjóð

Magni Fannberg með verðlaunin í höfuðstöðvum AIK í Stokkhólmi í …
Magni Fannberg með verðlaunin í höfuðstöðvum AIK í Stokkhólmi í dag. Ljósmynd/Filip Wiklund

Magni Fannberg, þróunarstjóri sænska knattspyrnufélagsins AIK í Stokkhólmi, hefur verið valinn stjórnandi ársins í sænska fótboltanum hjá þeim sem koma að þjálfun og þróun í  aldursflokknum 17-21 árs.

Á heimasíðu AIK er mikið fjallað um valið á Magna og sagt að hann eigi stóran þátt í þeim árangri sem náðst hefur hjá akademíu félagsins á síðustu árum en hann kom til AIK frá Brann í Noregi árið 2019 eftir að hafa gegnt svipuðu hlutverki þar.

„Magni er vinnusamur, metnaðarfullur og gefur sig allan í starfið við að þróa og þroska einstaka leikmenn, og það hefur skilað sér vel í þróun leikmanna AIK. Ég er ánægður með að það skuli vera tekið eftir störfum Magna og ég hlakka til að halda áfram að þróa AIK með honum," segir yfirmaður akademíu AIK, Johannes Wiklund, á heimasíðu félagsins.

Þar er ennfremur sagt að Magni hafi þróað þjálfunina hjá AIK þannig að hún sé komin á afar hátt stig á alþjóðlegum mælikvarða, og jafnframt deilt út þekkingu sinni á þann hátt að hún nýtist líka öðrum félögum í landinu. Sjálfur hafi hann síðan komið að þjálfun U19 ára liðs drengja hjá AIK í haust og undir hans stjórn hafi liðið klifrað úr níunda sætinu og upp í það fjórða, og þannig tryggt sæti sitt í úrvalsdeildinni í þessum aldursflokki á næsta ári.

Magni hefur hjá AIK verið í forsvari fyrir hóp sem hefur byggt upp nýtt gæðakerfi fyrir akademíurnar, þar sem meðal annars er skipulagt hvernig eigi að vinna með leikmennina í akademíunni og þegar þeir koma ungir inn í aðallið félagsins.

Magni, sem er 42 ára gamall, þjálfaði síðast á Íslandi árið 2008 þegar hann var með lið Fjarðabyggðar í 1. deild en hefur síðan verið búsettur í Svíþjóð og Noregi og þjálfað og starfað hjá Brommapojkarna, Brann og AIK.

mbl.is