Dortmund minnir á sig í toppbaráttunni

Erling Braut Haaland var einu sinni sem áður á skotskónum …
Erling Braut Haaland var einu sinni sem áður á skotskónum í liði Dortmund. AFP

Borussia Dortmund vann 5:1 stórsigur á Freiburg í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í kvöld og minnkaði um leið forskot Þýskalandsmeistara Bayern München niður í aðeins þrjú stig.

Hægri bakvörðurinn Thomas Meunier gaf strax tóninn þegar hann kom Dortmund í forystu strax á 14. mínútu eftir undirbúning Julian Brandt.

Eftir tæplega hálftíma leik var Meunier aftur á ferðinni, aftur eftir sendingu frá Brandt, og staðan orðin 2:0.

Norska markamaskínan Erling Braut Haaland varð að fá að vera með og kom Dortmund í 3:0 í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Enska ungstirnið Jude Bellingham lagði upp markið.

Eftir rúmlega klukkutíma leik minnkaði Ermedin Demirovic, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, muninn fyrir Freiburg.

Þegar stundarfjórðungur lifði leiks skoraði Haaland sitt annað mark í leiknum og fjórða mark Dortmund eftir undirbúning Mahmoud Dahoud.

Dahoud rak svo smiðshöggið sjálfur skömmu fyrir leikslok þegar hann skoraði eftir fyrirgjöf Nico Schulz.

Góður fjögurra marka sigur því staðreynd og Dortmund er nú þremur stigum á eftir Bayern München, sem á þó leik til góða til gegn Köln á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert