Hjartnæm fjölskyldustund í meistarakeppni Spánar (myndskeið)

Nico Williams fagnar sigurmarki sínu í gær.
Nico Williams fagnar sigurmarki sínu í gær. AFP

Dagurinn í gær var sannarlega góður fyrir Williams-fjölskylduna þegar hinn 19 ára gamli Nico skoraði sigurmarkið fyrir Athletic Bilbao gegn Spánarmeisturum Atlético Madríd í undanúrslitum meistarakeppni Spánar í knattspyrnu karla.

Eldri bróðir Nico, hinn 27 ára gamli Inaki, er einn af lykilmönnum Bilbao og var á vellinum þegar sá fyrrnefndi skoraði seint í leiknum og tryggði liðinu sæti í úrslitaleiknum gegn Real Madríd á sunnudag.

Bræðurnir Nico og Inaki fögnuðu markinu og sigrinum innilega saman og þá var móðir þeirra mætt til Sádi-Arabíu til þess að fylgjast með sonum sínum í leiknum í gær og grét af gleði í stúkunni.

Foreldrar Inaki og Nico eru frá Gana en fengu hæli í Bilbao í Baskalandi eftir að hafa flúið land árið sem Inaki fæddist, 1994. Bræðurnir fæddust báðir á Spáni.

Sjá má gleðistund Williams-fjölskyldunnar í gærkvöldi hér að neðan:

mbl.is