Leikmaður Bayern með bólgu í hjartavöðva

Alphonso Davies í leik með Bayern gegn Barcelona í Meistaradeildinni …
Alphonso Davies í leik með Bayern gegn Barcelona í Meistaradeildinni í vetur. AFP

Alphonso Davies, leikmaður Bayern München í Þýskalandi og kanadíska landsliðsins í knattspyrnu, er kominn í veikindaleyfi eftir að hafa greinst með bólgu í hjartavöðva.

Davies, sem er 21 árs gamall, þykir einn efnilegasti bakvörður heims, er reyndar fjölhæfur og spilar margar stöður, og hefur þegar leikið yfir 100 mótsleiki með Bayern og skorað 10 mörk í 30 landsleikjum fyrir Kanada.

Hann þarf að taka sér frí í nokkrar vikur hið minnsta en Julian Nagelsmann knattspyrnustjóri Bayern sagði við Bild að um smávægilegar bólgur væri að ræða. Ekki mætti hinsvegar taka minnstu áhættu, ráða yrði bót á meininu og það myndi alltaf taka nokkrar vikur.

Veikindi Davies eru líka mikið áfall fyrir kanadíska landsliðið sem stendur vel að vígi í baráttunni um sæti á HM í Katar og á mikilvæga leiki framundan.

mbl.is