Zlatan og félagar hughreystu dómarann eftir mistökin

Leikmenn AC Milan þyrpast að Marco Serra eftir að hann …
Leikmenn AC Milan þyrpast að Marco Serra eftir að hann dæmdi liðinu aukaspyrnu rétt áður en það skoraði í uppbótartímanum. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic og nokkrir liðsfélagar hans í AC Milan gengu til dómarans og hughreystu hann eftir að alvarleg mistök hans reyndust liðinu dýrkeypt í ítölsku A-deildinni í gær.

AC Milan tapaði þá óvænt, 1:2, fyrir Spezia á heimavelli eftir ótrúlega atburðarás í uppbótartímanum og missti af því að komast upp fyrir erkifjendur sína í Inter Mílanó á toppi deildarinnar.

Á annarri mínútu uppbótartímans þegar staðan var 1:1 skoraði Junior Messias og virtist hafa komið AC Milan yfir en þá hafði Marco Serra dómari þegar flautað og dæmt aukaspyrnu á Spezia í stað þess að beita hagnaðarreglunni.

Serra baðst strax afsökunar á mistökunum en gat ekki breytt dómnum. Upp úr aukaspyrnunni náði Spezia skyndisókn og skoraði sigurmarkið í leiknum.

Corriere della Sera segir að Serra hafi verið gjörsamlega niðurbrotinn eftir leikinn og beðið leikmenn AC Milan enn og aftur innilega afsökunar á því sem gerðist. Það hafi endað með því að fimm leikmenn liðsins með Zlatan í fararbroddi hafi gengið aftur til Serra til að hughreysta hann og telja í hann kjark á ný.

Ítalska dómarasambandið hefur jafnframt beðið AC Milan afsökunar á þessari óheppilegu atburðarás og gefið Serra tímabundið leyfi frá störfum í deildinni.

mbl.is