Norska goðsögnin látin

Nils Arne Eggen náði ótrúlegum árangri með Rosenborg.
Nils Arne Eggen náði ótrúlegum árangri með Rosenborg. Ljósmynd/Rosenborg

Nils Arne Eggen, norski knattspyrnuþjálfarinn sem gerði garðinn frægan sem stjóri Rosenborg á 10. áratug síðustu aldar, er fallinn frá áttræður að aldri.

Lést hann í svefni í nótt í faðmi fjölskyldu sinnar að því er NRK greinir frá.

Eggen stýrði Rosenborg til alls 14 Noregsmeistaratitla. Þá litu fjöldi Evrópuævintýra dagsins ljós undir hans stjórn, þar sem liðið komst til að mynda í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í átta tímabil samfleytt frá 1995 til 2002.

Í tvígang, tímabilin 1996/1997 og 1999/2000, komst liðið upp úr riðli sínum í Meistaradeildinni.

Á þessum tímum vann Rosenborg marga frækna sigra, þar á meðal 2:1-sigur gegn AC Milan á San Siro, 2:0 heimasigur á Real Madríd og 3:0 útisigur á Borussia Dortmund.

„Ég hef haft þýðingu fyrir Rosenborg en Rosenborg hefur haft miklu meiri þýðingu fyrir mig,“ lét Eggen hafa eftir sér þegar hann gerði upp þjálfaraferil sinn á sínum tíma.

Árið 2019 reisti Rosenborg styttu af Eggen fyrir utan Lerkendal-leikvang félagsins og var torgið þar sem styttan stendur í leiðinni nefnt eftir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert