Jota skaut Liverpool í úrslitaleikinn

Diogo Jota fagnar öðru marki sínu og Liverpool í kvöld.
Diogo Jota fagnar öðru marki sínu og Liverpool í kvöld. AFP

Liverpool er búið að tryggja sér sæti í úrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu eftir að hafa borið sigurorð af Arsenal, 2:0, á Emirates-vellinum í Lundúnum í síðari leik undanúrslita keppninnar í kvöld. Diogo Jota var hetja Liverpool og skoraði bæði mörk liðsins.

Arsenal hóf leikinn af miklum krafti og var nálægt því að taka forystuna strax á fimmtu mínútu þegar Caoimhin Kelleher varði frábært skot Alexandre Lacazette beint úr aukaspyrnu með naumindum í þverslánna.

Heimamenn héldu góðri pressu en það voru hins vegar gestirnir í Liverpool sem náðu forystunni með sínu fyrsta skoti í leiknum.

Diogo Jota fékk þá boltann frá Trent Alexander-Arnold, tók á rás, fór illa með Takehiro Tomiyasu, fór því næst framhjá Ben White og náði lúmsku skoti framhjá Aaron Ramsdale, nokkurn veginn á mitt markið, en Ramsdale var á leiðinni í hitt hornið og náði því ekki til boltans.

Jota kemur Liverpool í 1:0 í fyrri hálfleik.
Jota kemur Liverpool í 1:0 í fyrri hálfleik. AFP

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og leiddi Liverpool því með einu marki í leikhléi.

Síðari hálfleikurinn fór svo fjörlega af stað.

Á 49. mínútu slapp Lacazette einn í gegn eftir laglega sendingu Albert Sambi Lokonga en skot Lacazette á lofti fór yfir markið.

Tveimur mínútum síðar fór Jota mjög illa með White, lagði boltann út í vítateig á hinn 17 ára gamla Kaide Gordon sem þrumaði yfir markið af stuttu færi.

Eftir tæplega klukkutíma leik skallaði Ibrahima Konaté, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, í stöngina eftir hornspyrnu Alexander-Arnold frá hægri.

Varamaðurinn Takumi Minamino fékk svo gott færi í vítateignum á 69. mínútu en laust skot hans fór í Gabriel sem stóð rétt fyrir framan marklínuna.

Á 77. mínútu tvöfaldaði Liverpool forystu sína.

Jota slapp þá einn í gegn eftir frábæra langa sendingu frá Alexander-Arnold, tók laglega við boltanum með bringunni og lyfti honum snyrtilega yfir Ramsdale.

Aðstoðardómarinn dæmdi markið upphaflega af vegna rangstöðu en VAR leiðrétti mistökin þar sem Jota var sannanlega ekki rangstæður.

Jota skorar annað mark sitt og Liverpool í leiknum.
Jota skorar annað mark sitt og Liverpool í leiknum. AFP

Á 90. mínútu fékk varamaðurinn Thomas Partey sitt annað gula spjald á innan við þremur mínútum og þar með rautt eftir að hafa aðeins komið inn á 16 mínútum fyrr.

Leikurinn fjaraði svo út og 2:0 sigur, og sömuleiðis samanlagður sigur eftir markalaust jafntefli í fyrri leik liðanna, staðreynd.

Liverpool mætir Chelsea í úrslitaleik deildabikarsins á Wembley þann 27. febrúar næstkomandi.

Gabriel Martinelli með boltann í kvöld.
Gabriel Martinelli með boltann í kvöld. AFP
Arsenal 0:2 Liverpool opna loka
95. mín. Leik lokið Liverpool vinnur 2:0 og 2:0 samanlagt og er búið að tryggja sér sæti í úrslitum enska deildabikarsins!
mbl.is