Vill frekar Juventus en Lundúnaliðin

Dusan Vlahovic þykir einn efnilegasti framherji heims um þessar mundir.
Dusan Vlahovic þykir einn efnilegasti framherji heims um þessar mundir. AFP

Líkurnar á að serbneski knattspyrnumaðurinn Dusan Vlahovic verði keyptur til annaðhvort Arsenal eða Tottenham frá Fiorentina á Ítalíu virðast hafa minnkað verulega.

Sky in Italy segir í kvöld að Juventus sé komið í viðræður við Fiorentina um kaup á þessum eftirsótta framherja sem er falur fyrir 70 milljónir evra.

Lundúnafélögin vilja bæði fá Vlahovic í sínar raðir en samkvæmt Sky in Italy hafa umboðsmenn leikmannsins lagt tilboð frá þeim til hliðar og einbeita sér að því að samið verði við Juventus.

Fiorentina vill selja leikmanninn í þessum mánuði til að fá sem mestan hagnað af honum en hann á átján mánuði eftir af samningi sínum við félagið.

Vlahovic er markahæsti leikmaður A-deildarinnar í vetur ásamt Ciro Immobile hjá Lazio en þeir hafa skorað 17 mörk hvor. Vlahovic er aðeins 21 árs gamall en hefur þegar skorað 44 mörk í 98 leikjum fyrir Fiorentina í deildinni og sjö mörk í fyrstu fjórtán landsleikjum sínum fyrir Serbíu.

Hann kom til Fiorentina frá Partizan Belgrad fyrir fjórum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert