Rekinn eftir afleitt gengi

Milovan Rajevac hefur verið látinn taka pokann sinn.
Milovan Rajevac hefur verið látinn taka pokann sinn. AFP

Knattspyrnusamband Gana hefur tekið ákvörðun um að reka Serbann Milovan Rajevac úr starfi aðalþjálfara eftir að liðið féll úr leik í riðlakeppninni á Afríkumótinu í Kamerún á dögunum.

Gana, sem fyrirfram var talið eitt af sigurstranglegri liðum mótsins, vann sér aðeins inn eitt stig í þremur leikjum í C-riðlinum með Marokkó, Gabon og Kómoreyjum.

Steininn tók úr þegar Gana tapaði 2:3 fyrir smáþjóð Kómoreyja í lokaleik riðilsins og því afréð knattspyrnusambandið að láta Rajevac taka pokann sinn.

Leit stendur því yfir að nýjum aðalþjálfara fyrir mikilvæga leiki Gana í umspili um sæti á HM gegn nágrönnum sínum í Nígeríu í mars.

mbl.is