Perú tók stórt skref í átt að HM

Ólafur Ingi Skúlason og Birkir Bjarnason í baráttu við Edison …
Ólafur Ingi Skúlason og Birkir Bjarnason í baráttu við Edison Flores í vináttuleik Íslands og Perú árið 2018. Flores skoraði dýrmætt sigurmark Perú í kvöld. AFP

Perúbúar komu sér í kvöld í góða stöðu í baráttunni um sæti í lokakeppni heimsmeistarmóts karla í knattspyrnu sem fer fram í Katar í lok þessa árs.

Þeir sóttu Kólumbíumenn heim í fimmtándu umferð  Suður-Ameríku af átján og komu sér upp í fjórða sætið með sigri, 1:0.

Edison Flores, leikmaður DC United í Bandaríkjunum, skoraði sigurmarkið á 85. mínútu.

Þegar þremur umferðum er ólokið eru Brasilía með 36 stig og Argentína 32 og löngu komin með sæti á HM. 

Ekvador er í mjög góðri stöðu með 24 stig í þriðja sæti og Perú er nú með 20 stig í fjórða sætinu en fjögur efstu liðin komast beint á HM.

Liðið sem endar í fimmta sæti fer síðan í umspil. Þar situr nú lið Úrúgvæ með 19 stig en Kólumbía er með 17 stig, Síle 16, Bólivía 15, Paragvæ 13 og Venesúela 7. Venesúela og Bólivía eigast við í nótt.

Sextánda umferðin verður leikin á þriðjudagskvöldið og þá mætast Bólivía - Síle, Úrúgvæ - Venesúela, Argentína - Kólumbía, Brasilía - Paragvæ og Perú - Ekvador. Tvær síðustu umferðirnar fara síðan fram í lok mars.

mbl.is