Þrjú efstu tóku skref í átt að Katar

Antonee Robinson skorar sigurmark Bandaríkjanna gegn El Salvador.
Antonee Robinson skorar sigurmark Bandaríkjanna gegn El Salvador. AFP

Kanada, Bandaríkin og Mexíkó unnu öll í nótt mikilvæga sigra í baráttunni um sæti í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu og Kostaríka komst betur inn í slaginn með lykilsigri.

Níunda umferðin af fjórtán í úrslitakeppni Norður- og Mið-Ameríku var leikin í nótt og úrslit urðu þessi:

Bandaríkin - El Salvador 1:0
Jamaíka - Mexíkó 1:2
Hondúras - Kanada 0:2
Kostaríka - Panama 1:0

Kanada er með 19 stig, Bandaríkin 18,  Mexíkó 17, Panama 14, Kostaríka 12, Jamaíka 7, El Salvador 6 og Hondúras 3 stig.

Þrjú efstu liðin fara beint á HM í Katar og fjórða liðið fer í umspil.

Antonee Robinson, vinstri bakvörður og leikmaður enska liðsins Fulham, skoraði sigurmark Bandaríkjanna gegn El Salvador í Columbus, 1:0, á 52. mínútu. Pablo Punyed, leikmaður Víkings, var ekki í hópnum hjá El Salvador að þessu sinni.

Jonathan David innsiglaði 2:0 sigur Kanadamanna í Hondúras eftir að heimamenn höfðu skorað sjálfsmark snemma leiks.

Mexíkó lenti í kröppum dansi á Jamaíku eftir að Daníel Johnson kom tíu heimamönnum yfir í byrjun síðari hálfleiks. Mexíkó  tókst loks að nýta sér liðsmuninn á lokakafla leiksins þegar Ernesto Vega og Henry Martin skoruðu og tryggðu sigurinn.

Kostaríka varð að vinna Panama til að vera áfram með í baráttunni og það tókst. Bryan Ruiz skoraði sigurmarkið á 65. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert