Víkingurinn á leið til Bandaríkjanna

Óttar Magnús Karlsson skoraði 9 mörk í 14 deildarleikjum síðan …
Óttar Magnús Karlsson skoraði 9 mörk í 14 deildarleikjum síðan þegar hann lék með Víkingum sumarið 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Óttar Magnús Karlsson er að ganga til liðs við Oakland Roots sem leikur í í bandarísku B-deildinni eða USL-deildinni.

Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu en Óttar, sem er 24 ára gamall, er uppalinn hjá Víkingi í Fossvogi.

Hann er í dag samningsbundinn Venezia í ítölsku A-deildinni en hann lék fyrri hluta yfirstandandi tímabils á láni hjá Siena í ítölsku C-deildinni.

Alls á hann að baki 42 leiki í efstu deild með Víkingum þar sem hann hefur skorað 21 mark en hann hefur einnig leikið með Ajax, Sparta Rotterdam, Molde, Trelleborgs og Mjällby á atvinnumannaferlinum.

Þá á hann að baki 9 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað tvö mörk og 47 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað ellefu mörk.

Tímabilið í bandarísku B-deildinni hefst hinn 13. mars en þá heimsækir Oakland lið Rio Grande Valley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert