Úrslitin ráðast í lokaumferðinni

Rafael Leao skorar í kvöld.
Rafael Leao skorar í kvöld. AFP/Miguel Medina

Úrslitin um ítalska meistaratitilinn í fótbolta ráðast í lokaumferðinni og mun AC Milan eða erkifjendurnir Inter Mílanó verða ítalskur meistari.

AC Milan vann 2:0-heimasigur á Atalanta í kvöld. Rafael Leao og Theo Hernández gerðu mörk AC Milan og dugir liðinu útisigur á Sassuolo í lokaumferðinni til að verða meistari í fyrsta skipti í ellefu ár.

Inter Mílanó á enn möguleika á að verja titilinn eftir 3:1-útisigur á Cagliari. Matteo Darmian kom Inter yfir á Lautaro Martínez bætti við öðru marki á 51. mínútu.

Charalampos Lykogiannis minnkaði muninn á 53. mínútu en Martínez gulltryggði Inter sigurinn með sínu öðru marki og þriðja marki Inter. Liðið mætir Sampdoria í lokaumferðinni og verður að vinna og treysta á að AC Milan tapi.

mbl.is