Sara Björk yfirgefur Lyon í sumar

Sara Björk Gunnarsdóttir í úrslitaleik Lyon og Wolfsburg í Meistaradeild …
Sara Björk Gunnarsdóttir í úrslitaleik Lyon og Wolfsburg í Meistaradeild Evrópu sumarið 2020. AFP

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu til margra ára, spilar í mesta lagi þrjá leiki í viðbót með franska stórliðinu Lyon en fyrir liggur að hún yfirgefur félagið í sumar þegar samningur hennar rennur út.

Lyon spilar úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Barcelona á laugardaginn og á síðan eftir tvo leiki í frönsku 1. deildinni þar sem liðinu dugir eitt stig í tveimur leikjum gegn París SG og Issy til að gulltryggja sér meistaratitilinn.

„Já, þetta er ákveðið mál, ég fer frá Lyon eftir tímabilið, og eins og staðan er í dag er margt sem kemur til greina,“ sagði Sara Björk þegar mbl.is ræddi við hana í Lyon í kvöld. Hún kom til liðs við félagið sumarið 2020 og varð strax Evrópumeistari með því og skoraði þá mark í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn hennar gamla félagi, Wolfsburg.

Sara var í fríi frá því í apríl 2021 þegar hún tilkynnti að hún væri ófrísk, og þar til hún sneri aftur á völlinn með Lyon í marsmánuði. Allar líkur eru á að hún verði franskur meistari með liðinu í lok þessa mánaðar og þá leikur Lyon gegn Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á laugardaginn kemur.

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun, enda er ég ekki lengur bara að hugsa um sjálfan mig heldur fjölskylduna líka," sagði Sara en hún og Árni Vilhjálmsson sambýlismaður hennar eignuðust soninn Ragnar Frank í nóvember 2021.

Árni sem lék í vetur með Rodez í frönsku B-deildinni þarf væntanlega líka að finna sér nýjan vinnuveitanda en hann er þó samningsbundinn franska liðinu til næstu tveggja ára. „Það væri áhugavert að vera áfram með Rodez en fjölskyldan er númer eitt. Það mun alltaf finnast lausn á þessu," sagði Árni við mbl.is.

„Nú erum við bara að þreifa okkur áfram og sjá hvað sé best í stöðunni. Það er margt í boði og spurningin er hvað hentar best á þessum tímapunkti. Deildirnar í Englandi, Frakklandi, Þýskalandi og á Spáni eru allar mjög spennandi og ég vil halda mig á þeim slóðum," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert