Nottingham Forest í úrslitaleik umspilsins eftir vítaspyrnukeppni

Nottingham Forest mætir Huddersfield Town í úrslitaleik umspilsins.
Nottingham Forest mætir Huddersfield Town í úrslitaleik umspilsins. AFP

Nottingham Forest tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik umspils B-deildar karla í knattspyrnu með sigri í vítaspyrnukeppni gegn Sheffield United í öðrum leik liðanna í undanúrslitum umspilsins í Nottingham í kvöld.

Forest vann fyrri leikinn í Sheffield 2:1.

Brennan Johnson, tvítugur sóknarmaður Forest, kom heimamönnum yfir á 19. mínútu leiksins.

Strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Morgan Gibbs-White metin fyrir Sheffield United.

Á 75. mínútu kom John Fleck gestunum frá Sheffield í 2:1-forystu og knúði þannig fram framlengingu.

Í henni var ekkert skorað og því þurfti vítaspyrnukeppni til þess að knýja fram úrslit.

Í vítaspyrnukeppninni varði Brice Samba í marki Forest fyrstu tvær vítaspyrnur Sheffield United á meðan Forest skoraði úr fyrstu þremur spyrnum sínum.

Sheffield skoraði svo úr næstu tveimur spyrnum sínum á meðan Forest klúðraði einni.

Samba gerði sér svo lítið fyrir og varði sömuleiðis fimmtu spyrnu Sheffield og tryggði þannig Forest 3:2-sigur í vítaspyrnukeppninni.

Forest mun mæta Huddersfield Town í úrslitaleiknum um eitt laust sæti í ensku úrvalsdeildinni. Úrslitaleikurinn fer fram þann 29. maí næstkomandi á Wembley-leikvanginum í Lundúnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert