Besta mál ef ég get verið öðrum konum hvatning

Sara Björk Gunnarsdóttir, Ragnar Frank Árnason og Árni Vilhjálmsson við …
Sara Björk Gunnarsdóttir, Ragnar Frank Árnason og Árni Vilhjálmsson við kynningu heimildarmyndarinnar í Lyon. mbl.is/Víðir Sigurðsson

„Þetta fór allt í gang þegar ég lét umboðsmanninn minn vita að ég væri ólétt. Ég þurfti líka að hafa samband við styrktaraðilana og Puma er minn stærsti styrktaraðili. Ég var dálítið stressuð yfir því hvernig viðbrögðin þeirra yrðu en þau reyndust ótrúlega góð,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, við Morgunblaðið eftir að heimildarmyndin „Do Both“, um endurkomu hennar eftir barnsburð, var kynnt í Lyon á mánudagskvöldið og sagt var frá í blaðinu í gær.

„Þau sáu strax ákveðin tækifæri í því, á jákvæðan hátt, að ég væri ófrísk, og sögðu að reynsla mín gæti verið hvatning fyrir aðrar knattspyrnukonur sem spila í fremstu röð um að þær gætu komið aftur eftir að hafa eignast barn.

Ég vissi líka um leið og ég samþykkti að vera með í þessari heimildarmynd að þá yrði pressa á mér um að gera hlutina almennilega. Reyndar set ég alltaf gríðarlega mikla pressu á sjálfa mig og vildi koma til baka jafnöflug og ég var áður, þannig að þetta fór vel saman.

Auðvitað var ég fyrst og fremst að gera þetta fyrir sjálfa mig en sá að ef ég gæti um leið orðið öðrum konum hvatning þá væri það besta mál,“ sagði Sara sem tók virkan þátt í kynningu myndarinnar í Lyon og sat fyrir svörum að henni lokinni.

„Já, mín ólétta og endurkoma hafa strax haft áhrif. Ég hef fengið trilljón skilaboð frá ungum konum og svo erum við núna með annan leikmann í Lyon, Amel Majri, sem varð ólétt í október. Ég finn alveg að það er mikil hvatning fyrir hana að hafa séð mig koma til baka. Hún sá að þetta var mjög erfitt en líka að ég kom aftur sem sami leikmaður og í sama formi. Hjá mér hefur ekkert breyst annað en það að nú á ég yndislega fjölskyldu.

Svo hafa aðrir leikmenn haft samband, eins og þýska landsliðskonan Melanie Leupolz sem spilar með Chelsea. Hún varð ólétt og ég óskaði henni til hamingju og sagði henni að hún gæti alltaf leitað til mín. Hún vildi fá svör við endalausum spurningum."

Sjáðu viðtalið við Söru í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »