Eintracht Frankfurt Evrópudeildarmeistari

Leikmenn Eintracht Frankfurt fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Leikmenn Eintracht Frankfurt fögnuðu vel og innilega í leikslok. AFP

Eintracht Frankfurt frá Þýskalandi fagnaði sigri í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu eftir sigur gegn Rangers frá Skotlandi í vítakeppni í úrslitaleik í Sevilla á Spáni í kvöld.

Joe Aribo kom Rangers yfir á 57. mínútu eftir mikinn vandræðagang í vörn Eintracht Frankfurt.

Djibril Show, miðjumaður Eintracht Frankfurt átti misheppnaðan skalla til baka og Tuta, miðvörður þýska liðsins, rann til í grasinu.

Aribo slapp því einn í gegn og hann gerði engin mistök þegar hann lagði boltann snyrtilega framhjá Kevin Trapp í marki Eintracht Frankfurt.

Rafael Santos Borré jafnaði hins vegar metin fyrir Eintracht Frankfurt á 69. mínútu þegar Filip Kostic átti frábæra sendingu frá vinstri.

Borré var fyrstur að átta sig í vítateig Rangers, teigði sig í boltann, og kom honum framhjá Allan McGregor í marki Rangers af stuttu færi.

Hvorugu liðinu tókst að skora í framlengingunni og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Þar fagnaði þýska liðið 5:4-sigri þar sem Kevin Trapp reyndist hetja Eintracht Frankfurt en liðið fagnaði síðast sigri í keppninni, þá UEFA-bikarnum, árið 1980.

mbl.is