Landsliðskonur fái loks sömu laun og karlar

Tvær af skærustsu stjörnum bandaríska kvennalandsliðsins, Megan Rapinoe og Alex …
Tvær af skærustsu stjörnum bandaríska kvennalandsliðsins, Megan Rapinoe og Alex Morgan. AFP

Bandaríska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að kvenna- og karlalandsliðin muni leggja verðlaunafé sem og aðrar tekjur af sjónvörpun leikja og styrkjum, í sameiginlegan sjóð. 

Honum verður svo skipt jafnt milli karla og kvennaliðsins. Með þessu er loks hægt að tryggja að leikmenn landsliðanna fái sömu laun fyrir vinnu sína og afrek fyrir sambandið.

Þrátt fyrir betra gengi á stórmótum, hafa leikmenn kvennalandsliðsins notið töluvert lélegri kjara en leikmenn karlalandsliðsins. 

Breyta leiknum

Um er að ræða tímamóta og stefnumarkandi ákvörðun, að mati Cindy Parlow Cone, formanns sambandsins. 

„Þau hafa tækifæri til þess að breyta leiknum út um allan heim.“

Leikmenn kvennalandsliðsins höfðuðu dómsmál árið 2019, á hendur sambandinu, til viðurkenningar á því að launamunur kven- og karlkyns landsliðsmanna, væri ólögmætur.

Í febrúar tókust sættir milli leikmanna og sambandsins um að leikmönnum kvennalandsliðsins yrði greiddar 24 milljónir Bandaríkjadala í bætur. 

FIFA borgar ekki jafnt

Knattspyrnusambandið hafði áður lýst því yfir að erfitt væri að tryggja landsliðunum sömu greiðslur fyrir afrek á stórmótum, enda kæmu slíkar greiðslur frá alþjóðasambandinu, FIFA  og verðlaunafjárhæðirnar á karlmamótum væru töluvert hærri, þetta kemur fram í frétt BBC.

Þá hefur bandaríska knattspyrnusambandið einnig bundið sig til þess að tryggja að kvennalandsliðið spili á jafngóðum leikvangi og karlalandsliðið, gisti á hótelum í sama gæðaflokki og fái jafn mörg einkaflug og karlalandsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert