Launahæsti Íslendingurinn í Bandaríkjunum

Arnór Ingvi Traustason fær vel borgað í Bandaríkjunum.
Arnór Ingvi Traustason fær vel borgað í Bandaríkjunum. AFP

Arnór Ingvi Traustason er launahæsti Íslendingurinn í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu en Njarðvíkingurinn er samningsbundinn New England Revolution.

Launaþak er í bandaríski MLS-deildinni en forráðamenn deildarinnar birtu í gær launatölur hjá öllum leikmönnum deildarinnar.

Arnór Ingvi, sem er 29 ára gamall og á að baki 44 A-landsleiki, hefur leikið með New England frá árinu 2021 en hann þénar 438.405 Bandaríkjadollara á ári.

Það samsvarar um 58 milljónum íslenskra króna í árslaun sem gerir 4,8 milljónir í laun á mánuði.

Róbert Orri Þorkelsson, sem leikur með CF Montréal, er með 23 milljónir íslenskra króna í árslaun og Þorleifur Úlfarsson, sem leikur með Houston Dynamo, þénar rúmar tíu milljónir á ári.

mbl.is