Stuðningsmaður Forest í fangelsi eftir árás á leikmann

Úr leik Nottingham Forest og Liverpool í ensku bikarkeppninni í …
Úr leik Nottingham Forest og Liverpool í ensku bikarkeppninni í mars síðastliðnum. AFP/Paul Ellis

Lögreglan í Nottingham hefur haft hendur í hári stuðningsmanns Nottingham Forest sem skallaði Billy Sharp, leikmann Sheffield United, af öllu afli eftir að Forest hafði betur gegn Sheffield United í öðrum leik undanúrslita umspils ensku B-deildarinnar í knattspyrnu karla á þriðjudagskvöld.

Robert Biggs, þrítugur ársmiðahafi hjá Forest, var handtekinn og gekkst við broti sínu fyrir rétti í Nottingham í dag. Mun hann sitja í fangelsi í 24 vikur.

Biggs hljóp inn á City Ground, heimavöll, Forest, eftir að liðið vann Sheffield United í vítaspyrnukeppni og tryggði sér þannig sæti í úrslitaleiknum um eitt laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Þar skallaði hann Sharp svo harkalega að sauma þurfti fjögur spor í vör hans.

Biggs þarf að greiða Sharp 500 pund í miskabætur, 85 pund í málskostnað og 128 pund til viðbótar vegna þess áfalls sem Sharp varð fyrir.

Þá hefur Nottingham Forest bannað hann ævilangt og var hann sömuleiðis úrskurðaður í 10 ára bann frá öllum afskiptum af fótbolta af réttinum í Nottingham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert