Bale á leiðinni heim til Wales?

Gareth Bale í leik með Real Madrid í vetur.
Gareth Bale í leik með Real Madrid í vetur. AFP

Gareth Bale gæti spilað með velska knattspyrnuliðinu Cardiff City í ensku B-deildinni á næsta keppnistímabili en hann er laus allra mála hjá Real Madrid í sumar.

Bale, sem er 32 ára gamall og hefur skorað 38 mörk í 102 landsleikjum fyrir Wales, hefur lítið spilað með Real Madrid síðustu þrjú ár, en félagið keypti hann frá Tottenham fyrir metfé árið 2013.

Bale hefur samtals skorað 106 mörk í 258 mótsleikjum með spænska stórveldinu en hefur að undanförnu aðallega beðið eftir því að losna frá félaginu. Í vetur hefur hann aðeins spilað sjö mótsleiki með liðinu og skorað eitt mark.

Spænska íþróttablaðið Marca fjallar um þetta, Steve Morrison, yfirþjálfari Cardiff hefur rætt um þann möguleika að fá Bale til félagsins, og  Robert Page, landsliðsþjálfari Wales, hefur nú síðast gefið sterklega í skyn að þetta gæti orðið að veruleika. 

„Þetta er í höndum Gareth og Cardiff City og það er rétt hjá Gareth að segja að við skulum einbeita okkur að 5. júní (næsta landsleik Wales) og ræða svo málin eftir það," sagði Page við Marca.

mbl.is