Bandaríkin líklega brautryðjendur

Vanda Sigurgeirsdóttir formaður Knattspyrnusambands Íslands.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður Knattspyrnusambands Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, fagnar ákvörðun bandaríska knattspyrnusambandsins, að tryggja jöfn laun leikmanna í karla- og kvennalandsliðum sínum. „Það er spurning hvort þau verði brautryðjendur.“

Þar skuldbatt sambandið sig til þess að tryggja landsliðunum sömu aðstöðu og sömu fjárhæðir. Verður það gert með því að allar tekjur, óháð því hvort liðið eigi í hlut, séu lagðar í sjóð, og svo greitt úr þeim sjóði fyrir þau verkefni sem leikmenn taka að sér sem og fyrir afrek þeirra.

Jafnt frá KSÍ en ójafnt frá FIFA og UEFA

Töluverður munur er á þeim upphæðum sem knattspyrnusambönd heimsins fá frá alþjóðasamböndum svo sem FIFA og UEFA, fyrir afrek landsliða á stórmótum, eftir því hvort um kvenna- eða karlalandsliðið er að ræða, að sögn Vöndu. 

„Við greiðum dagpeninga og bónusa til leikmanna og það er hnífjafnt milli landsliða karla og kvenna.“

Aftur á móti hefur KSÍ ekki beitt sér fyrir því að jafna út þær greiðslur sem koma frá UEFA og FIFA og því eru kjör leikmanna kvenna- og karlalandsliðsins ekki fyllilega jöfn.

Vöndu þykir nálgun bandaríska sambandsins áhugaverð og spennandi verði að fylgjast með því hvaða áhrif hún eigi eftir að hafa á knattspyrnuheiminn.

KSÍ á góðri siglingu

„Hjá KSÍ eru allir að vinna fyrir fótboltann, við erum ekki með sér kvenna- og karladeild líkt og mörg önnur sambönd, og þar af leiðandi vinnur allt starfsfólk sambandsins af heilum hug að verkefnum landsliðanna óháð því hvort um kvenna- eða karlalandsliðið sé að ræða.“

Hún telur KSÍ bjóða leikmönnum upp á sömu aðstæður og aðbúnað, óháð kyni. 

„Það má alltaf gera betur en það hafa orðið stórséðar framfarir síðustu ár.“

Þá bendir hún á að fyrir komandi Evrópumeistaramót sem haldið verður í Bretlandi í sumar, hafi UEFA hækkað greiðslur til kvennalandsliða um helming frá árinu 2017, þær eru þó enn lægri en þær sem karlalandsliðið fær.

„Við erum á þessu ferðalagi og KSÍ er á nokkuð góðum stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert