Börsungar vilja tvo Spánverja Chelsea

Marcos Alonso og César Azpilicueta eru báðir undir smásjá Barcelona …
Marcos Alonso og César Azpilicueta eru báðir undir smásjá Barcelona og þá er Antonio Rüdiger á leið til Real Madríd. AFP/Glyn Kirk

Spænska knattspyrnuliðið Barcelona hefur áhuga á að fá Marcos Alonso og César Azpilicueta, spænska leikmenn Chelsea, til liðs við sig í sumar.

Bæði Alonso og fyrirliðinn Azpilicueta eru samningsbundnir Chelsea til sumarsins 2023 en samkvæmt Goal.com vinna Börsungar nú að því að fá þá báða án þess að þurfa að reiða fram háar fjárhæðir.

Fjárhagsvandamál Barcelona eru þekkt og því er þeim ekki kleift að kaupa dýra leikmenn. Þess í stað hefur félagið verið að semja við leikmenn með lausa samninga.

Enn einn Chelsea-maðurinn, Daninn Andreas Christensen, og Fílabeinsstrendingurinn Franck Kessié, leikmaður AC Milan, hafa til að mynda verið nefndir í því samhengi og er fastlega gert ráð fyrir að þeir báðir semji við Barcelona í sumar.

Tilboð Börsunga í Alonso og Azpilicueta eru einnig háð því hvort yfirtaka fjárfestahóps, sem Bandaríkjamaðurinn Todd Boehly er í forsvari fyrir, á Chelsea gangi í gegn undir lok þessa mánaðar.

mbl.is