Hákon og Ísak skoruðu og FCK danskur meistari

Hákon Arnar Haraldsson skoraði strax á 8. mínútu í dag.
Hákon Arnar Haraldsson skoraði strax á 8. mínútu í dag. Ljósmynd/FCK

Skagamennirnir ungu Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson skoruðu báðir fyrir FC Köbenhavn í dag þegar liðið tryggði sér danska meistaratitilinn í knattspyrnu með því að sigra AaB örugglega á heimavelli, 3:0.

FCK var með þriggja  stiga forskot á Midtjylland fyrir lokaumferðina í dag og dugði því stig til að verða meistari. Liðið endaði með 68 stig gegn 65 stigum Midtjylland sem vann Randers 3:2.

Hákon Arnar kom FCK á bragðið strax á áttundu mínútu með laglegu marki og Lukas Lerager bætti við marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks, 2:0.

Þegar Ísak Bergmann kom FCK í 3:0 á áttundu mínútu síðari hálfleiks voru úrslitin ráðin og þriðji Íslendingurinn bættist við þegar Orri Steinn Óskarsson kom inná sem varamaður á 72. mínútu, fyrir Hákon Arnar, og spilaði sinn fyrsta úrvalsdeildarleik.

Guðmundur Þórarinsson lék ekki með AaB sem endaði í fimmta sæti með 45 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert