Hertha hélt sæti sínu en gamla stórveldið situr eftir

Leikmenn Herthu fagna eftir að Marvin Plattenhardt kom þeim í …
Leikmenn Herthu fagna eftir að Marvin Plattenhardt kom þeim í 2:0 í Hamborg í kvöld. AFP/Ronny Hartmann

Hertha Berlín tryggði sér í kvöld áframhaldandi sæti í efstu deild Þýskalands í knattspyrnu með því að vinna útisigur á Hamburger SV, 2:0, í seinni umspilsleik liðanna.

Hertha varð í 16. sæti af 18 liðum 1. deildar, fyrir ofan Arminia Bielefeld og Greuter Fürth, sem féllu beint. Hamburger hafnaði í þriðja sæti B-deildarinnar, á eftir tveimur öðrum gömlum stórliðum, Schalke og Werder Bremen, sem fóru beint upp.

Hamburger, sem hefur sex sinnum orðið þýskur meistari, stóð vel að vígi eftir að hafa unnið Herthu 1:0 í fyrri umspilsleiknum í Berlín. Hertha náði hinsvegar að snúa blaðinu við í Hamborg í kvöld. Dedryck Boyata skoraði strax á fjórðu mínútu og Marvin Plattenhardt bætti við marki á 63. mínútu.

Hertha vann því einvígið 2:1 samanlagt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert