Mbappé ræddi við Liverpool

Kylian Mbappé mun halda kyrru fyrir hjá PSG.
Kylian Mbappé mun halda kyrru fyrir hjá PSG. AFP/Franck Fife

Knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé, franska stórstjarnan í liði Parísar Saint-Germain, hefur greint frá því að það var ekki einungis Real Madríd sem var á höttunum eftir honum áður en hann skrifaði undir nýjan samning við PSG, þar sem hann hafi einnig rætt við Liverpool.

Útlit var fyrir að Mbappé myndi fara til Madrídinga á frjálsri sölu þegar samningur hans við PSG átti að renna út í sumar en á dögunum var tilkynnt að hann yrði áfram í París til næstu þriggja ára.

„Það var ekki bara Real  Madríd og PSG, ég var í viðræðum um að ganga til liðs við Jürgen Klopp hjá Liverpool,“ sagði hann í samtali við franska fótboltamiðilinn TeleFoot.

Mbappé ræddi einnig við enska dagblaðið Telegraph þar sem hann minntist sömuleiðis á viðræður við Liverpool.

„Við ræddum aðeins saman en ekkert svakalega mikið. Ég ræddi við Liverpool því það er uppáhalds félag mömmu minnar, mamma mín elskar Liverpool. Ég veit ekki af hverju, þú þyrftir að spyrja hana!“

Mbappé greindi einnig frá því að hann hafi rætt við Liverpool árið 2017, þegar hann var enn hjá Monaco en fór stuttu síðar til PSG.

„Þetta er gott félag og við hittum þá fyrir fimm árum. Þegar ég var í Monaco hitti ég þá. Þetta er stórt félag,“ sagði hann einnig við Telegraph.

mbl.is