19 lögregluþjónar slösuðust fyrir úrslitaleik

Úrslitaleikur Sambandsdeildar UEFA fer fram í kvöld.
Úrslitaleikur Sambandsdeildar UEFA fer fram í kvöld. AFP/Ozan Kose

Alls slösuðust 19 lögregluþjónar þegar stuðningsmenn Roma og Feyenoord slógust í aðdraganda úrslitaleiks Sambandsdeildar UEFA í knattspyrnu karla sem fer fram í Tirana í Albaníu í kvöld.

Stuðningsmenn liðanna notuðust við glerflöskur, prik, steina og aðra hluti í gær og voru 80 stuðningsmenn Roma fluttir úr landi í morgun.

„Vegna ofbeldis í garð lögreglu af hendi stuðningsmanna beggja liða eru 19 lögregluþjónar slasaðir og einn þeirra var særður með hnífi,“ sagði Albert Dervishi, yfirlögregluþjónn albönsku lögreglunnar í yfirlýsingu.

Lögreglan Í Tirana hafði áður gefið það út að 60 einstakling, 48 Ítalir og 12 Hollendingar, hefðu verið færðir á lögreglustöðina og að tíu einstaklingar, Albanir, Ítalir og Hollendingar, hafi verið fluttir á sjúkrahús þar sem gert var að sárum þeirra.

Úrslitaleikur Sambandsdeildarinnar hefst klukkan 19 í kvöld og fer fram á Arena Kombetare í Tirana.

mbl.is