Fabinho og Gomez æfðu með Liverpool – Thiago ekki

Fabinho á æfingu Liverpool í morgun.
Fabinho á æfingu Liverpool í morgun. AFP/Paul Ellis

Brasilíski varnartengiliðurinn Fabinho og enski varnarmaðurinn Joe Gomez æfðu báðir með Liverpool í morgun. Spænski miðjumaðurinn Thiago var hins vegar hvergi sjáanlegur.

Fabinho fór meiddur af velli í fyrri hálfleik gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni vegna eymsla aftan í læ og missti því af síðustu tveimur deildarleikjum liðsins og bikarúrslitaleiknum gegn Chelsea um þarsíðustu helgi.

Gomez meiddist þá á ökkla í næstsíðasta deildarleik Liverpool gegn Southampton.

Báðir æfðu þeir í morgun en eru í kapphlaupi við tímann um að verða 100 prósent reiðubúnir fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Real Madríd næstkomandi laugardagskvöld.

Lykilmaðurinn Thiago, sem fór meiddur af velli í hálfleik í lokaleik Liverpool í deildinni síðastliðinn sunnudag, er sömuleiðis í kapphlaupi.

Hann æfði ekki í morgun og er hann því sem stendur ólíklegastur af þremenningunum að verða klár í slaginn í tæka tíð fyrir laugardaginn.

mbl.is