Vandræðalegt að spila fyrir luktum dyrum

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins.
Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins. AFP/Franck Fife

Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir það vandræðalegt fyrir liðið að þurfa að spila fyrir luktum dyrum á Molineux-vellinum í Wolverhampton þegar ítalska landsliðið heimsækir það enska í Þjóðadeild UEFA í næsta mánuði.

Ástæðan fyrir því að leikurinn verður spilaður án áhorfenda er sú að enska karlaliðinu var refsað fyrir alls kyns ólæti og óspektir enskra stuðningsmanna á úrslitaleik þjóðanna tveggja á EM á Wembley síðastliðið sumar.

 „Við erum á þeim stað sem við erum. Við stöndum núna frammi fyrir þeirri skömm að spila fyrir luktum dyrum á heimavelli.

Venjulega þegar við sjáum þetta gerast erlendis setjum við okkur sjálf á háan hest og segjum þetta vera vandamál í þeim löndum og hvernig réttast væri fyrir þau að bregðast við, og núna eru það við sem eigum í hlut. Það er ekki gott útlit fyrir landið okkar,“ sagði Southgate á blaðamannafundi í gær.

mbl.is