Neymar settur á sölulista hjá PSG

Neymar (t.h.) gæti farið frá PSG í sumar líkt og …
Neymar (t.h.) gæti farið frá PSG í sumar líkt og Ángel Di María (t.v.) mun gera. AFP/Anne-Christine Poujoulat.

Frakklandsmeistarar Parísar Saint-Germain í knattspyrnu karla hafa sett brasilísku stórstjörnuna Neymar á sölulista.

ESPN greinir frá og kveðst hafa heimildir fyrir.

Neymar skrifaði undir nýjan samning á síðasta ári og gildir hann til sumarsins 2025.

Samkvæmt ESPN vill franska stórveldið breyta um stefnu án Neymars eftir að Kylian Mbappé, önnur stórstjarna í liði PSG, skrifaði óvænt undir nýjan þriggja ára samning á dögunum eftir að allt útlit var fyrir að hann myndi fara til Real Madríd á frjálsri sölu í sumar.

Vonast PSG til þess að selja Neymar í sumar og yrði salan hluti af fleiri breytingum hjá félaginu þar sem Leonardo er til að mynda að hætta sem yfirmaður íþróttamála og Luis Campos, sem sinnti því starfi hjá Monaco þegar Mbappé lék þar og vann franska meistaratitilinn árið 2017, tekur við af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert