Vegleg dagskrá Viaplay í kringum úrslitaleikinn

Bikarinn sem keppt verður um á morgun.
Bikarinn sem keppt verður um á morgun. AFP/Franck Fife

„Hann kostar 2.690 fyrir þá sem eru ekki með áskrift. Fólk sækir Viaplay í símann, fartölvuna, spjaldtölvuna eða sjónvarpið,“ sagði Hjörvar Hafliðason, íþróttastjóri Viaplay á Íslandi, í samtali við mbl.is um leik Liverpool og Real Madrid í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Leikurinn hefst klukkan 19 og geta íslenskir áhorfendur nálgast leikinn í gegnum streymisveituna. Viaplay verður með veglega dagskrá í kringum leikinn.

„Hörður Magnússon og Heimir Hallgrímsson eru í París og Rúrik Gíslason og Kári Árnason verða í stúdíó Viaplay í Reykjavík. Michael Laudrup, fyrrverandi leikmaður Real, kíkir á Heimi og Hörð og útsendingin byrjar 90 mínútum fyrir leik. Þetta er lengra og ítarlegra en hefur verið hjá okkur,“ sagði Hjörvar og hélt áfram.

„Það ætti ekki að vera neitt vandamál fyrir fólk að nálgast þetta. Svo verðum við með alla landsleiki, bæði hjá A-landsliðinu og U21 á næstunni og fólk getur fylgst með því líka,“ bætti hann við.

Hjörvar staðfesti einnig að ákvæði um að hafa stóra viðburði á borð við úrslitaleik Meistaradeildarinnar í opinni dagskrá ætti ekki lengur við. 

Úrslitaleikurinn fer fram á Stade de France í París.
Úrslitaleikurinn fer fram á Stade de France í París. AFP/Javier Soriano
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert