Bókum hótelið í Istanbúl strax

Jürgen Klopp og Carlo Ancelotti, stjórar Liverpool og Real Madrid, …
Jürgen Klopp og Carlo Ancelotti, stjórar Liverpool og Real Madrid, skildu sáttir í leikslok. AFP/Franck Fife

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool sagði eftir ósigurinn gegn Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á Stade de France í kvöld að sínir menn myndu fá annað tækifæri til að vinna keppnina.

Liverpool gat unnið einstæða fernu þegar kom fram á lokasprett tímabilsins, eftir að hafa unnið deildabikarinn og enska bikarinn, en missti naumlega af enska meistaratitlinum og sá síðan á eftir Evrópubikarnum til Real Madrid eftir 0:1 tap þrátt fyrir að vera með talsverða yfirburði í leiknum á löngum köflum.

„Ég hef mjög sterka tilfinningu fyrir því að við munum fá annað tækifæri. Strákarnir eru nógu góðir til þess og við verðum með frábæran hóp á næsta tímabili. Hvar er næsti úrslitaleikur? Í Istanbúl? Bókum hótelið strax!" sagði Klopp við BT Sport eftir leikinn.

„Í búningsklefanum er enginn sem stendur á þeirri skoðun að þetta hafi verið frábært tímabil hjá okkur. Við gætum þurft nokkra klukkutíma til að átta okkur á því. Við spiluðum vel í kvöld, ekki fullkominn leik, en strákarnir reyndu allt, sérstaklega þegar staðan var 1:0. Þá spiluðum við eins og við ætluðum okkur að gera," sagði Klopp.

Andy Robertson vinstri bakvörður sagði við BT Sport að það væri erfitt að sætta sig við ósigurinn.

„Það er steinþögn í búningsklefanum, menn eru niðurbrotnir. Þannig er þetta þegar þú tapar úrslitaleik. Við fengum góð tækifæri en rákumst á ótrúlegan markvörð. En ég viðurkenni að við hefðum getað spilað betur. Við pressum mótherjana, og það hefur reynst okkur vel, en við höfum fengið á okkur mörk á fjærstönginni. Þannig er fótboltinn. Það er erfitt að vinna sig aftur inn í leik gegn mjög reyndu liði eins og Real Madrid, sem kann að halda fengnum hlut," sagði Robertson.

mbl.is