Mér var ekki sýnd næg virðing á Englandi

Thibaut Courtois lyftir Evrópubikarnum á Stade de France í kvöld.
Thibaut Courtois lyftir Evrópubikarnum á Stade de France í kvöld. AFP/Javier Soriano

Belgíski markvörðurinn Thibaut Courtois var valinn besti leikmaður úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld þegar lið hans, Real Madrid, lagði Liverpool að velli, 1:0, á Stade de France í útjaðri Parísar.

Cortouis varði nokkrum sinnum stórkostlega í leiknum og var sú hindrun sem leikmenn Liverpool náðu ekki að yfirstíga þó þeir hefðu yfirburði á löngum köflum. Belginn varði níu skot í leiknum sem er það mesta sem nokkur markvörður hefur gert í úrslitaleik keppninnar í átján ár.

Courtois sagði eftir leikinn að það hefði verið sérstaklega ánægjulegt að vinna þennan leik gegn ensku liði því sér hefði aldrei verið sýnd nægileg virðing á Englandi á þeim sjö árum sem hann lék þar með Chelsea.

Varnarmenn Real Madrid fagna Thibaut Courtois eftir að hann varði …
Varnarmenn Real Madrid fagna Thibaut Courtois eftir að hann varði frá Mohamed Salah úr dauðafæri í leiknum í kvöld. AFP/Paul Ellis

„Ég varð að vinna svona stóran titil í kvöld, fyrir mína ferilskrá, eftir alla þá miklu vinnu sem ég hef lagt í að öðlast þá virðingu sem ég á skilda. Hún hefur ekki alltaf verið  til staðar, sérstaklega ekki á Englandi. Þar fékk ég oft mikla gagnrýni, meira að segja eftir að hafa átt frábær tímabil," sagði hinn þrítugi Courtois við BBC.

„Ég er afar stoltur af liðinu, við lögðum allt í sölurnar og þegar liðið þurfti á mér að halda var ég tilbúinn. Við unnum nokkur af bestu liðum heims í keppninni. Manchester City og Liverpool voru ótrúleg á þessu tímabili. Þau börðust til síðasta leiks í úrvalsdeildinni. Liverpool vann tvo  bikara og var firnasterkt. Okkar leikur var frábær í dag. Við fengum eitt marktækifæri og nýttum það," sagði Thibaut Courtois.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert