Úrslitaleiknum seinkað og stuðningsmenn Liverpool beittir piparúða

Þessum stuðningsmönnum Liverpool tókst að komast inn á Stade de …
Þessum stuðningsmönnum Liverpool tókst að komast inn á Stade de France. AFP/Franck Fife

Úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu milli Liverpool og Real Madríd hefur verið seinkað um hálftíma og á nú að hefjast klukkan 19.30 í stað 19 eins og upphaflega stóð til.

Samkvæmt UEFA var leiknum seinkað af öryggisástæðum.

Þegar stutt var í að leikurinn ætti að hefjast vantaði talsvert mikið af stuðningsmönnum Liverpool í áhorfendastúku Stade de France-leikvangsins.

Nick Parrott, blaðamaður hjá BBC, er á svæðinu og greinir frá því að fjöldinn allur af stuðningsmönnum Liverpool hafi beðið drykklanga stund fyrir utan leikvanginn án þess að vera hleypt inn.

Parrott ræddi við BBC Radio 5 Live og greindi þar frá því að hann og stuðningsmenn Liverpool hafi verið beittir piparúða af lögreglunni og að hann átti sig ekki á því af hverju engum virðist hleypt inn um hlið Y og Z.

„Það var rétt í þessu verið að beita mig piparúða í fyrsta sinn á ævi minni. Ég hef farið á úrslitaleik Meistaradeildarinnar áður en hef aldrei verið beittur piparúða áður.

Ég var fyrir utan Y-hlið sem hefur endurtekið verið opnað og lokað undanfarnar 90 mínútu en enginn hefur komist í gegn. Öryggisverðir hinum megin við hliðið færðu sig framar og beittu piparúða.

Ég hef séð tíu stuðningsmenn reyna að klifra yfir girðingar. Z-hlið virðist opið en það virðist engin hreyfing inn fyrir. Ég hef aldrei orðið vitni að svona upplausn á neinum leik sem ég hef farið á í persónulegum erindum.

Liverpool-stuðningsmenn eru að reyna að færa sig frá þessum hliðum til þess að gera tilraun til þess að komast inn á leikvanginn en stjórnendur virðast ekki vera að gera neitt. Ég kom hingað klukkutíma áður en leikurinn átti að hefjast,“ sagði Parrott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert