Bauð Steven Gerrard fyrirliðabandið

„Það var einn leikur sem Steven Gerrard spilaði með okkur í varaliðinu,“ sagði knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Guðlaugur Victor, sem er 31 árs gamall, gekk til liðs við Liverpool frá AGF í Danmörku árið 2009.

Gerrard, sem er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Liverpool, var þá fyrirliði félagsins en Guðlaugur Victor náði aldrei að spila aðalliðsleik fyrir félagið.

„Það er upplifun sem situr í manni enda var ég fyrirliði í þeim leik og spilaði með honum á miðjunni,“ sagði Guðlaugur Victor.

„Ég var ógeðslega stressaður og bauð honum fyrirliðabandið fyrir leik en hanna afþakkaði það pent,“ sagði Guðlaugur Victor meðal annars.

Viðtalið við Guðlaug Victor í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is